Líkamleg óeirð í neðri hluta skrokksins sem hefur fylgt mér undanfarin 4-5ár minnkar ekkert. Þetta óþol hefur áhrif á hugsanir, tilfinningar, langanir og ákvarðanatöku. Einnig á starfsþrek og þol til vinnu, ekki síst þar sem sl. ár hefur bakverkur farið vaxandi.
Eins og í gær og í dag, þá ætlaði ég að hvíla mig, slaka á og horfa á bíómyndir eða fræðslumyndir. Mér er ómögulegt að liggja kjurr og finna til líkamlegrar vellíðunar, þarf alltaf að hreyfa mig eitthvað eða breyta um stellingu. Ég sef aldrei lengur en tvo tíma án þess að glaðvakna sem veldur langþreytu, geðslag, minnkun á starfsþreki og samskiptahæfni minni hrakar.

Heimilislæknir lét taka röntgenmyndir og sendi mig í framhaldi af því í sneiðmyndatöku til Akureyrar. Að því loknu greindi hann þrjá hryggjaliði ekki í réttri stöðu og lagði fram tilgátu um að eitthvað væri að þrengja að taugum sem gæti verið að valda óeirðinni, dofnum fótum, breyttu göngulagi vinstri fótar, fótkulda, svefnleysi og bakverkinum. Þessi tilgáta gaf mér von um leið út úr þessari stöðu.

Í dag heyrði ég í honum aftur og sagðist hann vísa mér til Ingvars Hákonar Ólafssonar heila og taugaskurðlæknis á Landspítalanum í Fossvogi. Það nafn fékk ég hjá Jóni Ingimundi sem hefur lýst mjög líkri stöðu sinni og er hjá mér.